Félagsstarf 2023

Félagsnefnd GO var lítið starfandi á árinu þar sem megin áherslan í starfi nefndarinnar hefur verið að sinna félagsstarfi utan opnunartíma golfvallarins og verkefni hafa fallið meira í hendur starfsmanna GO að stofna til viðburða.

Að venju er kvennanefnd GO og virk og árið hófst með starfi kvennanefndar sem skellti í púttmótaröð í upphafi ársins. Í febrúar hófst almennt starf klúbbsins þegar við buðum upp á innanfélagsmót eða hitting í golfhermum Golfhallarinnar á Granda. Sá viðburður var svo endurtekinn 1. apríl og heppnuðust bæði mótin vel.

 

Það snjóaði töluvert á vallarsvæðinu í febrúar og mars og því fór gönguhópur GO ekki af stað síðastliðinn vetur en við stefnum að því að endurvekja þann hóp svo það verði hægt að hafa reglulegar göngur um svæðið um helgar eins og við höfum gert í nokkur ár núna við góðan orðstír og ef einhver áhugasamur er að lesa þessi orð þá vantar okkar leiðtoga í það verkefni sem hefur þær skyldur einar að ganga fremstur og leiða hópinn í klukkustundar göngu um svæðið og næsta nágrenni. Endilega hnippið í fókið okkar á skrifstofunni ef þið hafið áhuga og þið fáið góðar viðtökur.

Vegna gífurlegs snjóalags þá var heldur rólegt hjá okkur í mars og apríl svo það var ekki fyrr í maí að næsti skipulagði viðburður leit dagsins ljós þegar við boðuðum til árlegs vorfundar GO sem var gífurlega vel sóttur og þar fóru formaður og framkvæmdastjóri yfir stöðu mála og það var gífurlega spenna í loftinu og kynntur var opnunardagur á golfvellinum sem var ákveðinn 7. maí þetta árið. Á fundinum voru einnig kynnt til leiks nýir veitingaaðilar á Urriðavelli þau Axel Óskarsson og Katrín Ósk Aldan sem áttu heldur betur eftir að sanna sig og slá í gegn þetta sumarið.

Áður en við opnuðum Urriðavöll þá hélt Þórður Ingason alþjóðadómari golfreglunámskeið sem var vel sótt og það er dæmigerður hefðbundin félagsviðburður og í raun eitthvað sem allir kylfingar eiga að vera duglegir að sækja þegar þeir sjá það auglýst.

Konurnar okkar í kvennanefndinni sem hófu árið með hefðubundnu sniði og buðu upp á púttmótaröð bættu í vetrardagskrá sína þetta árið með því að skipuleggja fyrstu kvennagolfferð GO í langan tíma eða í sögunni en þær höfðu skipulagt vorferð kvenna til La Sella, skráning var ekki alveg eins og vonir stóðu til enda landið og þjóðin að stíga út úr takmökunum en það voru flottar konur sem áttu frábærar stundir á La Sella. Dagskrá kvennanefndar var svo lífleg og hægt að lesa allt um hana í skýrslu kvennanefndar.

Eftir opnun golfvallarins tók við hefðbundið félagsstarf sem snýr að viðburðahaldi í kringum golfmót, innanfélagsmótaröð GO skipar þar stóran sess og svo sjálft meistaramótið okkar þar sem þessum mótum er lokað með glæsilegum lokahófum og Bændaglíma GO var haldin með hefðbundnu sniði og mikilli veislu. Til viðbótar við hefðbundið starf bættist svo stór félagsviðburður þegar við óskuðum eftir aðstoð félagsmanna við ýmis störf í kringum Evrópumót stúlknalandsliða sem haldið var hér með glæsibrag í byrjun júní, þar fengum við til liðs við okkur yfir 100 sjálfboðaliða sem sinntu ýmsum störfum og frábær stemming var innan hópsins. Við látum myndir tala sínu máli hér fyrir neðan.

 

 

Árinu var svo að sjálfsögðu lokað með ferð í heitara land og að þessu sinni fór rúmlega 30 manna hópur til Buenavista á Tenerife þar sem árinu var lokað með stæl.