Golfleikjanámskeið Golfakademíu Odds

Golfleikjaskóli Golfakademíu Odds

Haldin voru fjögur golfleikjanámskeið sumarið 2023 og sóttu um 150 krakkar þau námskeið. Hvert námskeið stendur yfir í viku í senn og kennslutími frá 9 – 12.

Vinsældir námskeiðanna hafa aukist ár frá ári og rúsínan í pylsuendanum er vissulega sú að allir þátttakendur á námskeiðum fá fulla félagsaðild að Ljúflingi og geta spilað út sumarið þar.

Á námskeiðunum eru börnunum kennd grunnatriði golfíþróttarinnar. Kennslan er uppsett með æfingum og leikjum með það að markmiði að skapa ánægjulega upplifun fyrir börnin.

Golfkennsla á öllum námskeiðunum var í höndum PGA kennaranna Phill Hunters og Rögnvaldar Magnússonar ásamt því að með þeim starfaði íþróttastjóri GO, Hrafnhildur Guðjónsdóttir sem er í PGA golfkennaranáminu. Auður Björt Skúladóttir og Birkir Þór Baldursson sem einnig eru í PGA golfkennaranáminu voru hluti af teyminu. Að auki voru Axel Óli Sigurjónsson, Birgitta Ösp Einarsdóttir, Hildur Mei Henriksdóttir, Elínbet Rögnvaldsdóttir og fleiri að aðstoða við að gera upplifun barnanna eftirminnilega.

Iðkendum sem náð hafa tökum á íþróttinni og sýna áhuga á frekari æfingum stendur svo til boða að taka þátt í almennum æfingum klúbbsins fyrir þennan aldurshóp í samráði við íþróttastjóra GO.