Skýrsla kvennanefndar 2023

Skýrsla kvennanefndar GO 2023

Kvennanefnd árið 2023 skipuðu Halla Bjarnadóttir (formaður), Árný Davíðsdóttir, Edda Kristín Reynis, Guðbjörg Eiríksdóttir, Helen Nielsen, Ingibjörg Baldursdóttur og Salvör Kristín Héðinsdóttir.  Starfsárið var nokkuð hefðbundið þó vorið hafi staðið full lengi að margra mati þar sem vellirnir komu illa undan vetri en það fór þó betur en á horfðist.

Púttmótaröðin var með hefðbundnu sniði og var spilað í átta skipti í frábærri aðstöðu í Íþróttamiðstöð GKG. Mikil ánægja var með mótið og aðstöðuna en 83 konur mættu í 282 skipti og púttin urðu 7531 alls. Í mars héldum við einnig Golfhermamót með stuttum fyrirvara og mættu 15 konur.

Sumarstarfið hófst 2. maí með Létt-kvennakvöldi þar sem snæddur var kvöldverður, spjallað, spilað Golf quiz, þar sem konur reyndu sig m.a. við golfreglurnar. Á kvöldið mættu 65 konur auk nefndarkvenna og vorum við mjög ánægðar með frábæra þátttöku.

Árleg vorferð var farin til Sandgerðis 2. júní og þar mátti sjá fjörtíu föngulegar Oddskonur spila fjögurra kvenna texas mót með miklum glæsibrag og gleðin var allsráðandi. Heyrst hefur að Sandgerðisfólk sé enn að tala um þessa miklu gleðigjafa.  Vinkvennamót GO og GK var síðan dagana 20. og 21. júní þar sem spilað var tvö daga í röð og sömu holl báða dagana. Fyrri daginn var spilað á Hvaleyrarvelli og þann síðari á Urriðavelli. Okkur Oddskonum tókst að landa sigri fimmta árið í röð og lyftum bikarnum hátt á loft í mikilli gleði. Lokahófið í þessu móti er orðið virkilega stór hluti af viðburðinum enda var mætingin frábær og mikil gleði.

Lúflingsmótið var í ágúst og eins ótrúlegt og það er þá virðumst við Oddskonur ná að toppa gleðina á þessum degi á hverju einasta ári. Það voru 87 litríkar konur sem tókust á við Ljúfling með tveimur kylfum, tóku þátt í ýmsum þrautum og fengi góða næringu reglulega. Deginum lauk með veisluhöldum og verðlaunaafhendingu í skálanum.

Söfnun á fuglum og örnum var með hefðbundnu sniði, kassinn á sínum stað og söfnuðust 343 fuglar og tveir ernir. Haldið var áfram að draga reglulega út Fuglaprinsessur yfir sumarið en þó voru einungis dregnar út tvær prinsessur enda fór söfnunin hægt af stað sökum vallaraðstæðna. Á lokahófinu var Fugladrottning Oddskvenna 2023 dregin út og var það Jóhanna Dröfn Kristinsdóttir sem hlaup titilinn að þessu sinni.

Lokamót og lokahóf var í lok starfsársins þann 9. september og var frábær mæting í mótið en 92 konur voru skráðar til leiks. Um kvöldið var lokahóf með frábærum veitingum, verðlaunaafhendingu, söng og dansi. Þessi viðburður var virkilega vel heppnaður og mikill fjöldi vinninga var afhentur þar sem í stað skorkortaverðlauna voru veitt verðlaun fyrir hin ýmsu sæti en alls voru veitt 51 verðlaun.

Árið var sem betur fer nokkuð hefðbundið að þessu sinni og ný kvennanefnd er þessa dagana að leggja drög að starfi næsta árs. Undirritið hefur nú lokið störfum sem formaður nefndarinnar og þakkar kærlega fyrir góð ár og samstarf í tengslum við nefndarstörfin.

Með kærri Oddskveðju

F.h. kvennanefndar GO

Halla Bjarnadóttir